Í nýjasta þætti kvikmyndaþáttarins Bíóbæjar, sem frumsýndur er alla miðvikudaga á Hringbraut, og er nú eins og aðstandendur lýsa honum sjálfir „sá þéttasti til þessa“, er rætt um nýju finnsku hryllingsmyndina Hatching sem kemur rétt fyrir Hrekkjavöku, ásamt nýrri rómantískri gamanmynd með Sigourney Weaver og Kevin Kline, The Good House. Hinn síðarnefndi hefur legið í dvala í ansi langan tíma eins og þeir Gunnar Anton og Árni Gestur segja í þættinum.
Svo tekur við önnur „romcom“ – Bros frá leikstjóra Forgetting Sarah Marshall með Billy Eichner í aðalhlutverki.
Syngjandi krókódíll
En ekki nóg með það heldur er komin ný barnamynd um syngjandi krókódíl! Jón Jónsson talar og syngur fyrir hann Kalla Káta Krókódíl en tónlistin er eftir þá sem gerðu hina geysivinsælu tónlist í The Greatest Showman.
Svo í lokin þá taka umsjónarmenn smá yfirferð á væntanlegri barnamyndahátíð sem verður haldin í Bíó Paradís!