Tuttugu og tvö ár eru síðan Coen bræður gerðu kvikmyndina The Big Lebowski, en einn leikara þar var John Turturro í ógleymanlegu hlutverki sem kynferðisglæpamaðurinn og keiluspilarinn Jesus Quintana. Hann snýr nú aftur á keilubrautina í nýrri hliðarkvikmynd, The Jesus Rolls.
Turturro er sjálfur í leikstjórnarsætinu í myndinni ásamt því að skrifa handritið. Í rauninni er samt kvikmyndin lausleg endurgerð frönsku gamanmyndarinnar Going Places frá árinu 1974, þar sem Quintana hefur verið splæst inn í söguna.
Going Places, sem var eftir Bertrand Blier, var mjög umdeild á sínum tíma, og var með Miou-Miou, Gérard Depardieu og Patrick Dewaere, í aðalhlutverkum. Hún fjallaði um þrjá kynferðislega brenglaða utangarðsmenn í vafasömum erindagjörðum.
Aðrir helstu leikarar í The Jesus Rolls eru Audrey Tautou, Bobby Cannavale, Pete Davidson, Jon Hamm, Susan Sarandon, Christopher Walken og J.B. Smoove.
Þó að Coen bræður séu ekki viðriðnir myndina, þá gáfu þeir Turturro blessun sína á að nota persónuna, sem kemur einungis fyrir í tveimur stuttum en eftirminnilegum atriðum í The Big Lebowski.
Fyrsta kitlan kom út í dag, en enginn frumsýningardagur er skráður á myndina á Íslandi. Myndin verður frumsýnd í febrúar í Bandaríkjunum.
Sjáðu kitluna og plakatið hér fyrir neðan: