Óskarsverðlaunaferðalangar skoða tökustaði

Sannir kvikmyndaunnendur reyna alla jafna að vera búnir að sjá hverja einustu kvikmynd sem tilnefnd er sem besta mynd á hverri Óskarsverðlaunahátíð, og það á einnig við um hátíðina í ár, þá nítugustu í röðinni, sem fer fram á sunnudaginn kemur.  Þeir sem vilja leggja sig enn meira fram, þeir ferðast og sjá tökustaði hinna tilnefndu kvikmynda.

Í samantekt á vefsíðu Forbes tímaritsins segir að í ár þýði þetta að fólk yrði m.a. að ferðast til Englands, en nokkrar af hinum tilnefndu myndum voru teknar þar í landi, eða myndirnar Darkest Hour, Phantom Thread og hluti af Dunkirk.

Þeir sem ákveða að leggja land undir fót í þessum tilgangi munu sjálfsagt rata fljótt í Churchill War Rooms safnið í Lundúnum, en frá því neðanjarðarbirgi, sem kemur við sögu í Darkest Hour, stjórnaði Winston Churchill forsætisráðherra Bretlands aðgerðum í Seinni heimsstyrjöldinni. Hægt er að hlusta þar á rödd Churchill að flytja útvarpsávarp, og einnig má virða fyrir sér hálfreyktan vindil í öskubakka m.a.

Þeir sem vilja upplifa Dunkirk á eigin skinni, geta farið í hina svokölluðu Mat McLachlan Battlefield ferðir, en þar er um skipulagðar ferðir að ræða á sögulega átakastaði um allan heim. “Ferðir okkar eru sérsniðnar að hverjum viðskiptavini, á hvaða átakasvæði sem er í heiminum,” segir McLachlan, en hann er stríðssagnfræðingur með meiru.

Þeir sem vilja kynnast sögusviði kvikmyndarinnar The Post, ættu að kíkja á sýninguna The Marines and Tet: The Battle That Changed the Vietnam War, í hinu gagnvirka Newseum safni í Washington.

Nágrenni Baltimore á árunum í kringum 1952 er síðan sögusvið kvikmyndarinnar The Shape of Water, en ef einhver vill heimsækja Ebbing, Missouri, til að kynna sér sögusvið Three Billboards in Ebbing, Missouri gæti sá hinn sami orðið fyrir vonbrigðum, þar sem sá staður er skáldskapur einn.

Fjallabærin Sylva í Norður Karólínu lék þar hlutverk Ebbing, en bærinn er í klukkustundar akstursfjarlægð frá Asheville í Western North Carolina. Hinn 2.644 manna bær gerir sig nú kláran til að taka á móti auknum fjölda ferðamanna, samkvæmt Forbest.

Sannað er að kvikmyndir laða ferðamenn að tökustöðunum, og eykst ferðamannastraumur um frá 25 – 300% að sögn Jeff Manheimer, eins stofnenda og forstjóri Tripping.com.  Frægasta dæmið er Lord of the Rings myndaflokkurinn, en sagt er að ferðamönnum hafi fjölgað um 50% í Nýja-Sjálandi vegna kvikmyndarinnar.

Ef menn vilja kynna sér tökustað Get Out þá gerist myndin í uppsveitum New York en hún var hinsvegar kvikmynduð í Fairhope og Mobile í Alabama fylki.

Vegna Lady Bird þurfa menn að fara til Sacramento, en vegna Call Me by your Name þarf að ferðast til Lombardy á Ítalíu.