Skrímslasería Universal kvikmyndaversins er nú óðum að taka á sig mynd, en hún samanstendur af væntanlegri seríu skrímsla- ævintýra- , og yfirnáttúrulegra mynda eins og Tom Cruise endurræsingunni á The Mummy og myndum um Van Helsing, Drakúla greifa, The Wolf Man, Gill-man, The Invisible Man og Bride of Frankenstein.
Ýmsir þekktir leikarar hafa tekið að sér hlutverk í ofangreindum myndum auk Tom Cruise, en þar má fyrst nefna Johnny Depp í The Invisible Man.
Kvikmyndaverið á nú samkvæmt Variety í viðræðum við spænska leikarann Javier Bardem um að leika hlutverk Frankenstein í einhverri ofangreindra mynda. Ljóst er þó að það verður ekki í The Mummy, þar sem tökum á henni er nær lokið.
Heimildir Variety herma að Frankenstein komi ekki fram í Bride of Fankenstein, heldur í einhverri annarri mynd fyrst, þar sem menn sjá fyrir sér að gera hliðarmynd með Frankestein í framhaldinu.
Universal réð leikstjórann Alex Kurtzman ( Star Trek ) og Chris Morgan síðasta sumar til að þróa skrímslaseríuna sem tengdan „heim“ af myndum, ekki ósvipað og er gert í Marvel þar sem ofurhetjur eru bæði með sínar eigin myndir og hittast í myndum annarra á víxl.
Upphaflega var rætt við Bardem um að leika Dr. Jekyll á móti Cruise í The Mummy, en hann gaf það frá sér, og Russell Crowe tók þá hlutverkið að sér.
Bardem sást síðast í Sean Penn myndinni The Last Face og leikur nú í ónefndri Darren Aronofsky mynd með Jennifer Lawrence.
Þá leikur hann í nýjustu Pirates of the Carribean myndinni sem frumsýnd verður næsta sumar, Pirates of the Caribbean: Dead Men Tell No Tales.