Ríða um héruð í rauntíma

Hetjur munu aftur ríða um héruð þegar sjónvarpsserían Heroes: Reborn mun hefja göngu sína nú í haust í Bandaríkjunum.

heroes

Sjónvarpsserían Heroes, sem fjallaði um ólíka einstaklinga sem allir bjuggu yfir einhverjum ofurkröftum, sló í gegn um miðjan fyrsta áratug þessarar aldar, en framleiðslu þáttanna var hætt eftir 4. seríu, en vinsældirnar höfðu þá dalað umtalsvert.

Menn hafa þó ekki misst alla trú á hugmyndinni, því þessi nýja 13 þátta sería kemur nú í haust.

Í seríunni kemur við sögu blanda af nýjum og gömlum persónum, en margir ættu að kannast við Noah Bennet, öðru nafni HRG ( Jack Coleman ) og Hiro Nakamura ( Masi Oka ).

heroes 2

Tim Kring höfundur þáttanna segir að Heroes Reborn muni halda áfram í rauntíma, þ.e. eins og fjórða serían hefði ekki verið sú síðasta, og nú væri einfaldlega komin 10. serían, en ekki sú fimmta.

Kring segir þetta gert til að nýir og eldri áhorfendur, byrji að horfa á sama stað, og serían höfði þannig til beggja hópa.

Meðal eldri persóna sem tengja saman gömlu og nýju þættina þá munu spádómar Angela Petrelli og tímaferðalög Hiro, verða notuð í sögunni. Þá mun Mohinder Suresh (Sendhil Ramamurthy) koma mikið við sögu. Ein vinsæl persóna mun þó ekki koma við sögu; Sylar (Zachary Quinto).

Þættirnir hefja göngu sína 24. september nk. á NBC sjónvarpsstöðinni, en fyrstu tveir þættirnir verða þó fyrst frumsýndir á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Toronto í Kanada, TIFF.