Skítblankur og atvinnulaus

barkhadFrægð og ríkidæmi haldast ekki alltaf í hendur og sannar leikarinn Barkhad Abdi það. Abdi lék eftirminnilega í kvikmyndinni Captain Phillips og var tilnefndur til Óskarsins fyrir hlutverk sitt í myndinni.

Leikarinn fékk hinsvegar ekki mikið fyrir sinn snúð frá framleiðslufyrirtæki myndarinnar og er þar að auki atvinnulaus í dag. Abdi er sagður vera skítblankur og þurfti hann m.a. að fá lánuð jakkaföt fyrir Óskarsverðlaunin.

Áður en Abdi fékk hlutverkið í myndinni þá vann hann hjá limmósínu-fyrirtæki. Eftir að tökum á myndinni lauk þá flutti hann heim og byrjaði að vinna við að selja farsíma. Þegar myndin var svo frumsýnd þá hætti hann í vinnunni til þess að fylgja myndinni og draumi sínum eftir. Framleiðslufyrirtæki Captain Philips greiddi honum dagpeninga á meðan kynningu á myndinni stóð, en núna hefur hann engar tekjur.

Þó að leikarinn eigi lítið á milli handanna í dag þá er framtíðin eflaust björt því honum hefur boðist hlutverk í kvikmyndinni, The Place That Hits The Sun, og fjallar hún um Suður-Afríska hlauparann Willie Mtolo, sem keppti í New York-maraþoninu árið 1992.