Riddick ríkir á toppnum

Riddick, framtíðartryllirinn með Vin Diesel í aðalhlutverkinu, er vinsælasta myndin í Bandaríkjunum þessa helgina. Reyndar fékk myndin ekki mikla samkeppni, því hún var eina nýja myndin sem frumsýnd var í mikilli dreifingu í landinu.

Riddick-0

Samkvæmt Deadline vefnum þá er útlit fyrir að myndin muni þéna nálægt 20 milljónum Bandaríkjadala yfir alla helgina.

Söguþráðurinn er eftirfarandi: Hinn alræmdi Riddick var svikinn af eigin fólki og skilinn eftir á eyðiplánetu. Riddick berst þar fyrir lífi sínu gegn geimófreskjum og verður sífellt sterkari og hættulegri. Fljótlega koma hausaveiðarar annarsstaðar að úr sólkerfinu og sækja að Riddick en verða einungis peð í hefndaráætlun Riddick. Nú er Riddick með óvini sína nákvæmlega þar sem hann vill hafa þá. Riddick hefnir sín nú af öllum krafti áður en hann snýr aftur heim á plánetuna sína Furya til að bjarga henni frá gereyðingu.

Ef þetta verður niðurstaða helgarinnar þá er myndinni að ganga verr heldur en síðustu mynd í Riddick seríunni, en The Chronicles of Riddick, þénaði 25 milljónir dala á sinni opnunarhelgi árið 2004. Sú mynd reyndar þénaði á endanum um 50 milljónir dala í Bandaríkjunum í heildina, en þar sem kostnaðurinn var mun meiri, var myndin talin flopp, sem aftur leiddi til þess að Diesel varð sjálfur að punga út peningum úr eigin vasa til að gera þessa nýjustu mynd, Riddick.

Af öðrum myndum á lista er það helst að frétta að Lee Daniels’ The Butler, gæti þénað 8,1 milljón dala yfir helgina alla, en myndin var tvær vikur á toppnum og er komin upp í 90 milljónir dala í tekjur í heildina í Bandaríkjunum eftir fjórar vikur í sýningum.

Annar óvæntur smellur, Instructions Not Included, er að gera það gott en myndin er spænsk / ensk gamanmynd með Eugenio Derbez í aðalhlutverki. Myndin er sú fjórða vinsælasta þessa helgina samkvæmt áætluðum tölum, en búið er að fjölga sýningarstöðum myndarinnar upp í 700.