Edward Norton í Red Dragon

Nú þegar loksins er búið að staðfesta leikstjórann Brett Ratner ( Rush Hour ) í að leikstýra framhaldinu að The Silence of the Lambs og Hannibal, en það ber heitið The Red Dragon, er að finna leikara í myndina. Fyrst var rætt um Nicholas Cage í hlutverk Will Graham, lögreglumannsins sem náði á sínum tíma Hannibal Lecter og er nú að eltast við nýjan fjöldamorðingja, en Cage hætti síðan við. Nú er helst rætt um að hugsanlega verði það stórleikarinn Edward Norton sem muni taka þetta hlutverk að sér. Framleiðendur myndarinnar eru síðan að leita að einhverjum tiltölulega óþekktum til að leika fjöldamorðingjann í handriti Ted Tally að The Red Dragon, og er nauðsynlegt að vel takist til eigi myndin að heppnast. Þá er spurningin þessi, er Anthony Hopkins orðinn of gamall til að endurtaka hlutverk sitt sem Hannibal Lecter í þessari sögu sem á að gerast nærri 10 árum áður en Silence of the Lambs gerðist og hún gerðist 7 árum áður en Hannibal gerðist. Alls verður Hopkins því að yngja sig um 17 ár fyrir myndina og hefur jafnvel verið talað um að nota tölvubrellur til þess að hjálpa honum við þetta yngingarferli fyrir myndina sem fer í framleiðslu nú í Nóvember.