Forsagan af Exorcist

Lengi hefur verið talað um að gera nýja The Exorcist en sú fyrsta er almennt talin besta hryllingsmynd allra tíma. Frekar en að vera framhald eins og Exorcist tvö og þrjú, myndi hún gerast áður en hinir ógnvænlegu atburðir áttu sér stað í hinni upprunalegu. Þetta verkefni hefur nú tekið stórt stökk fram á við, en búið er að ráða leikstjóra og er það John Frankenheimer ( Ronin ). Handritshöfundurinn Caleb Carr skrifaði handritið, og gengur það fjöllum hærra í Hollywood að það sé mjög sterkt og vel skrifað, en söguþráðurinn fjallar um prestinn Merrin og hvernig hann ferðast til Afríku til þess að stöðva djöfullegt afl sem hefur þar tekið sér bólfestu. Á einhverjum tímapunkti var talað um Alec Baldwin í aðalhlutverkið en líklega hefur verið fallið frá því. Engir leikarar hafa því enn verið nefndir til sögunnar, en vonandi einhverjir góðir því þetta gæti orðið að einhverju merkilegu ef rétt er haldið á spöðunum.