Strumparnir fá plakat!

Strumparnir snúa aftur í kvikmyndahúsin næsta sumar og í tilefni af því hefur verið birt ansi blátt plakat fyrir myndina. Framhaldsmyndin ber nafnið Smurfs 2 og mun fjalla um ævintýri Strumpanna þar sem þeir verða að vinna saman til að bjarga Strympu (e. Smurfette) úr klóm Kjartans (e. Gargamel). Eins og flestir vita kom fyrsta Strumpamyndin út í fyrra og var ein af stærri myndum sumarsins.

Strumparnir voru vinsælasta fjölskyldumyndin á Íslandi í fyrra og þénaði dágóða summu ásamt því að fá fínustu dóma. Christina Ricci, Neil Patrick Harris, Katy Perry, Hank Azaria og Brendan Gleeson eru meðal þeirra stórstjarna sem ljá Strumpunum rödd sína í ensku útgáfu framhaldsmyndarinnar.

Íslenska útgáfan af Strumpunum skartaði Ladda sem Kjartani Galdrakarli en raddir Strumpana voru meðal annars í höndum Ævars Þórs Benediktssonar, Atla Rafns Sigurðarsonar, Þrastar Leós Gunnarssonar og Kjartans Gujónssonar. Þá ljáði poppdívan Jóhanna Guðrún Strympu rödd sína en Katy Perry sér um það hlutverk í ensku útgáfunni. Ekki hefur enn verið staðfest hvort þau munu öll snúa aftur í framhaldsmyndinni, en það verður þó að teljast líklegt.