Börn og Ísland á Gullna Svaninum

Börneftir Ragnar Bragason hefur verið valin til að keppa um Gullna svaninn á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Kaupmannahöfn sem fram fer frá 20.-30. september næstkomandi. Þar að auki stendur hátíðin fyrir sérstöku Íslandsmyndakvöldi miðvikudaginn 26. september. Þar verða til sýnis Foreldrar eftir Ragnar Bragason og Vesturport og Mýrin eftir BaltasarKormák. Ragnar verður viðstaddur sýninguna og svarar spurningum á eftir. Í fréttatilkynningu kemur fram að aðstandendur Kaupmannahafnarhátíðarinnar segja allt að gerast í íslenskum kvikmyndum og full ástæða sé til að flykkjast á þær. Á vef hátíðarinnar www.copnehagenfilmfestival.com kemur fram að nú kraumi og sjóði í íslenskri kvikmyndagerð og að því beri að fagna, enda séu íslenskar kvikmyndir orðnar jafn spennandi útflutningsvara og íslensk tónlist og íslenskur matur! Í tilkynningunni segir einnig að Danir muni einnig eiga þess kost að sjá Börn og Foreldra Ragnars Bragasonar og Vesturports á almennum sýningum í október og nóvember. Þá opni Köld Slóð eftir Björn B. Björnsson Bíódaga á Norðurbryggju þann 6. nóvember, en þetta er í þriðja skiptið sem Menningarhúsið Norðurbryggjan stendur fyrir Bíódögum (m.a. í samstarfi við Birgir Thor Møller kvikmyndafræðing, Kvikmyndamiðstöð Íslands og sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn) og verður boðið uppá fyrirlestra, umræður og kvikmyndir frá Grænlandi, Færeyjum og Íslandi. Nánari upplýsingar á www.bryggen.dk/biodage.