Ruglingur með Kill Bill

Fregnir af nýjasta verkefni undrabarnsins Quentin Tarantino ( Pulp Fiction ) , sem nefnist Kill Bill, herma að ágreiningur sé um áframhaldandi veru Uma Thurman ( Gattaca ) í myndinni. Hún átti að leika aðalhlutverkið og var búin að vera í bardaga og sverðaþjálfun til þess að standa sig sem best. Nú er klækjakvendið aftur á móti orðin eigi kona einsömul því hún og eiginmaðurinn Ethan Hawke ( Gattaca ) eru með baun í ofninum. Tarantino vill að sögn fá aðra manneskju til þess að höndla hlutverkið en Miramax, sem framleiðir myndina, vill frekar bíða þangað til að hún er búin að eiga og tilbúin aftur til þess að takast á við hlutverkið. Spurning hvað gerist í þessu máli, en allt of langt er orðið síðan að Tarantino gerði síðast mynd og ekki skrítið að hann vilji hefjast handa sem fyrst.