12 nýjar íslenskar myndir í ár?

Vikuritið Fréttatíminn greinir frá því í dag að útlit sé fyrir metár í frumsýningum á íslenskum myndum nú í ár, en allt að 12 myndir gætu ratað í bíó áður en árið er á enda.

„Þegar hafa bíógestir getað séð Fúsa eftir Dag Kára Pétursson, Austur eftir Jón Atla Jónasson og Blóðberg eftir Björn Hlyn Haraldsson, sem reyndar var frumsýnd
í sjónvarpi,“ segir í Fréttatímanum.

sigurður sigurjónsson

Fréttatíminn vísar í vefsíðuna Klapptré.is, en samkvæmt samantekt hennar gætu níu myndir bæst við, en þá sé ótalin stórmyndin Everest eftir Baltasar Kormák.

Myndirnar sem um ræðir eru: Bakk eftir Gunnar Hansson og Davíð Óskar Ólafsson, ( Bakk verður frumsýnd 8. maí nk. ) Hrútar eftir Grím Hákonarson, Albatross eftir Snævar Sölvason, Webcam eftir Sigurð Anton Friðþjófsson, Reykjavík eftir Ásgrím Sverrisson og Þrestir eftir Rúnar Rúnarsson.

Þá segir í greininni að óvíst sé með frumsýningu þriggja síðustu myndanna, en það eru Sumarbörn eftir Guðrúnu Ragnarsdóttir, Reykjavik Porno eftir Graeme Maley og Fyrir framan annað fólk eftir Óskar Jónasson.