Agnes slær met í aukningu – 55% fleiri áhorfendur í viku 2

Íslenska kvikmyndina Agnes Joy hefur slegið met í aukningu á áhorfendum milli sýningarhelga en myndin var frumsýnd þann 17. október síðastliðinn. Nú hafa tæplega sex þúsund manns farið á myndina í bíó. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Senu.

Eins og fram kemur í aðsóknartölum FRISK þá sóttu 1.175 manns myndina á fyrstu sýningarhelginni, en töluverð aukning varð síðan milli vikna því 1.810 komu að sjá myndina á annarri sýningarhelgi. Það er um 55% aukning milli vikna.

Agnes Joy, í leikstjórn Silju Hauksdóttur sem skrifar einnig handritið ásamt Göggu Jónsdóttur og Jóhönnu Friðriku Sæmundsdóttur, hefur fengið góðar viðtökur gagnrýnenda og áhorfenda. Morgunblaðið gaf myndinni fjórar og hálfa stjörnu og Fréttablaðið fullt hús, eða fimm stjörnur.

Með aðalhlutverk fara þær Katla Margrét Þorgeirsdóttir og Donna Cruz, en einnig leika í myndinni þau Þorsteini Bachmann, Björn Hlynur Haraldsson, Anna Kristín Arngrímsdóttir og Kristinn Óli Haraldsson.

„Agnes Joy er einstaklega vel leikin kvikmynd og er samleikur helstu leikara svo hárfínn að vandaður efniviðurinn fær hreinlega vængi,“ sagði í þættinum Menningunni á RÚV. 22. október

Agnes Joy er þroskasaga mæðgna af Skaganum. Rannveig, leikin af Kötlu Margréti, upplifir kulnun í lífi og starfi. Það er ekki nóg með að hún sé einmana, hjónabandið á leið í hundana og föst í starfi sem hún hatar, heldur á hún í stöðugum útistöðum við dóttur sína, Agnesi, leikin af Donnu Cruz.

„Agnes Joy er svo ofboðslega góð kvikmynd. Einföld og látlaus en samt svo yfirþyrmandi víðfeðm og djúp að mann skortir eiginlega orð. Frábær,“ segir um myndina í Fréttablaðinu 24. október.

Framleiðendur eru Birgitta Björnsdóttir og Gagga Jónsdóttir fyrir Vintage Pictures. Handritið er byggt á hugmynd Mikaels Torfasonar sem er meðframleiðandi ásamt Guðbjörgu Sigurðardóttur.

Agnes Joy var frumsýnd hér á landi þann 17. október.