11. Halloween myndin á leiðinni

Ellefta Halloween hrollvekjan er á leiðinni, aðdáendum myndaflokksins til mikillar gleði eða hryllings, eftir því sem á það er litið.

Halloween 2007 5Myndin heitir Halloween Returns og tökur munu hefjast í júlí. Handrit skrifa hrollvekjumeistararnir Marcus Dunstan og Patrick Melton, sem skrifuðu Saw IV, Saw V og Saw VI. Dunstan mun einnig leikstýra.

Upprunalega Halloween myndin var eftir John Carpenter og var frumsýnd árið 1978 með Donald Pleasance og Jamie Lee Curtis í helstu hlutverkum, en þetta var fyrsta kvikmyndahlutverk Curtis.

Sjö framhaldsmyndir fylgdu í kjölfarið á árunum milli 1981 og 2002. Serían var svo endurræst árið 2007 með Halloween og Halloween II árið 2009.

Samkvæmt NME verður Halloween Returns stök mynd og ekki tengd síðustu endurræsingum. Í myndinni koma fersk fórnarlömb til sögunnar, þar á meðal 18 ára barn eins af fyrri fórnarlömbum raðmorðingjans grímuklædda Michael Myers.