Fyrsta sýnishornið er lent fyrir íslensku kvikmyndina Leynilögga (e. Cop Secret á ensku) og er hún byggð á samnefndri grínstiklu frá árinu 2011. Þar fóru ýmsir þjóðþekktir einstaklingar með gestahlutverk og má fastlega gera ráð fyrir að umrædd kvikmynd haldi sama stíl.
Það er Hannes Þór Halldórsson, landsliðsmarkvörður og auglýsingaleikstjóri, sem er við stjórnvölinn og skrifar handritið ásamt Nínu Petersen og Sverri Þór Sverrissyni. Á bakvið söguna standa Auðunn Blöndal, Egill Einarsson og Hannes Þór. Lilja Ósk Snorradóttir hjá Pegasus framleiðir myndina og er Elli Cassata kvikmyndatökumaður.
Auðunn Blöndal, Egill Einarsson, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, Björn Hlynur Haraldsson, Vivian Ólafsdóttir og Sverrir Þór Sverrisson fara með helstu hlutverk í kvikmyndinni. Í henni má einnig sjá glitta í heitustu söngvara landsins, Bríeti og Jón Jónsson. Þá kemur knattspyrnugoðið og samfélagsmiðlastjarnan Rúrik Gíslason við sögu.
Kvikmyndin segir frá ofurlöggu í afneitun varðandi kynhneigð sína sem verður ástfanginn af nýja félaga sínum á meðan þeir rannsaka undarleg bankarán þar sem engu virðist vera stolið. Á YouTube-síðu myndarinnar segir að bíómyndin sé búin að vera 10 ár í fæðingu.
Skoðið stikluna hér fyrir neðan: