Aðalleikarar
Leikstjórn
Handrit
Alfred Hitchcock er sennilega minn uppáhaldsleikstjóri, og það er mikill fengur í nýja DVD-safninu sem Universal var að gefa út með flestum myndum meistarans. Marnie var ein af þeim Hitchcock-myndum sem ég hafði ekki séð, og þegar ég sá hana úti á leigu stóðst ég hreinlega ekki mátið. Marnie er ekki á meðal frægustu mynda Hitchcocks, sennilega þar sem hún kom strax á eftir meistaraverkunum Psycho og The Birds og var ekki jafn sjokkerandi. Hitchcock vildi fá Grace Kelly í titilhlutverkið og hætti næstum við myndina eftir að það mistókst. Eftir The Birds snerist honum hugur og hann réð Tippi Hedren á staðnum til að leika Marnie, konu sem er lygari, þjófur, og karlahatari út í gegn. Hún ferðast á milli staða undir fölsku nafni og rænir fyrirtæki stórum fjárfúlgum. Dag einn kemur hún til Philadelphiu og ræður sig til Rutland-fyrirtækisins, sem hún ætlar að ræna um leið og færi gefst. Hún veit ekki að eigandinn, Mark Rutland (Sean Connery), kannast við hana frá öðrum stað sem hún rændi og ætlar sér að fylgjast vel með frúnni. Marnie hefur hitt ofjarl sinn og myndin fylgist með sálfræðistríði þessara tveggja karaktera, sem leiðir til mjög dramatískra og óvæntra endaloka. Hitchcock notast mikið við hreina sálfræði í þessari mynd, og var greinilega talsvert á undan sinni samtíð með það. Litir skipta jafnframt miklu máli hér, einkum gulur og rauður. Hedren er fyrsta flokks sem Marnie. Hlutverkið er mjög krefjandi og talsvert óvenjulegt fyrir sína samtíð. Connery er traustur að venju, og Diane Baker sem lævís ung kona og Louise Latham sem móðir Marnie eru einnig sérlega góðar. Marnie er kannski ekki meðal þekktustu mynda meistarans, en sannarlega vel þess virði að kíkja á við tækifæri.
Um myndina
Leikstjórn
Handrit
Winston Graham, Jay Presson Allen
Framleiðandi
MCA Universal Home Video
Aldur USA:
PG