John Carter stingur rauðuna í augun

Það styttist óðum í nýju stikluna fyrir stórmyndina John Carter en til að seðja ævintýraþorsta þeirra sem bíða, hefur nýtt plakat fyrir myndina verið birt á vefnum. Þeir sem eru þreyttir á bláa/appelsínugulu litblöndunni sem hefur verið mikið í plakatshönnun upp á síðkastið eiga líklegast eftir að svíða í augun. Fyrir þá sem misstu af því, þá var einnig birtar nýjar ljósmyndir úr myndinni nýlega á vefnum.

Satt að segja finnst mér þetta plakat helvíti smekklegt og skemmtilega einfalt; John Carter er eftirtektarverður á plakatinu þar sem hann er blár en bakgrunnurinn er rauður eins og yfirborð Mars. Þetta passar í raun hvað varðar söguna þar sem John Carter er ofurmannlegur á Mars og ekki af stofni Marsbúa og sker sig þannig sérstaklega úr hópnum sem hann lendir meðal.

Þá er spurning hvort myndin öðlist meiri athygli á næstu dögum þegar nýja stiklan kemur út, en sú fyrri gerði lítið fyrir þá sem sáu hana vegna hversu lítið hún sýndi og engin söguþráður kom fram. Eins og flestir vita þá er myndin byggð á Barsoom-seríu Edgar Rice Burroughs og er kvikmyndin nú ein sú dýrasta í sögunni. Myndin er einnig fyrsta leikna mynd óskarsverðlaunahafans Andrew Stanton. Lengi hefur það verið draumur í Hollywood að koma þessari seríu í kvikmyndaform og Disney-mönnum hefur svo sannarlega tekist það.

Þessi langþráði ævintýralegi vísindaskáldskapur er væntanlegur 9. mars á næsta ári.