Zorro snýr aftur á skjáinn

Eða það vonar Sony allavega. Fyrirtækið hefur ráðið handritshöfundana Matthew Federman og Stephen Scaia til að skrifa nýja mynd um kappann. Þetta verður þeirra fyrsta kvikmyndahandrit, en þeir hafa unnið mikið í sjónvarpi áður á þáttum eins og Jericho og Warehouse 13. Fregnir herma að nýja myndin verði byggð á skáldsögu Isabel Allende frá árinu 2005, þar sem hún mótaði upprunasögu fyrir þennan goðsagnakennda karakter. Bókinni var vel tekið og þótti henni takast vel að tvinna saman sögulegar staðreyndir við skáldaða ævisögu hetjunnar Zorro.

Zorro er 92 ára gamall, en persónan birtist fyrst árið 1919 í framhaldssögunni The Curse of Capistrano eftir Johnston McCulley. Aðeins ári seinna var gerð kvikmynd eftir þeirri sögu sem bar nafnið The Mark of Zorro og skartaði Douglas Fairbanks í aðalhlutverki. Sú mynd gerði karakterinn ódauðlegan og hefur hann birst ótal sinnum á prenti, í sjónvarpi og á silfurtjaldinu; nú síðast með Antonio Banderas í aðalhlutverki í The Legend of Zorro, sem kom út árið 2005. Þá má ekki gleyma þeim áhrifum á pulp-menningu sem karakterinn hafði, t.d. talaði Bob Kane um að Zorro hefði verið einn helsti innblástur hans að persónunni Batman.

Mynd eftir bók Allende er kannski ekki frumlegasti hlutur í heimi, en ég hef trú á því að „Zorro Begins“ gæti heppnast vel ef hún verður gerð vel. Þetta hljómar allavega mun betur en það síðasta sem heyrðist af Zorro, að planið væri að gera um hann framtíðarmynd með vísindaskáldsagnaþema.