Gamanleikarinn og leikstjórinn Ben Stiller ræddi nýlega við Empire online um mögulegt framhald á hinni kostulegu Zoolander mynd sem fjallar um karlmódelið Derek Zoolander, sem Stiller lék, og keppinaut hans Hansel, sem leikinn var af Owen Wilson.
„Þetta verkefni er þannig statt að við erum búnir að skrifa handritið, ég og Justin Theroux, og við erum búnir að afhenda kvikmyndaverinu það,“ sagði Stiller í samtalinu. „Núna er stúdíóið með handritið og við bíðum og sjáum hvað þeir vilja gera. Sagan gerist tíu árum eftir fyrri myndina, og gerist aðallega í Evrópu. Ég vil ekki segja of mikið, en þetta er aðallega um Derek og Hansel tíu árum síðar – þó svo að síðasta mynd hafi endað vel, þá hefur ýmislegt gerst þarna í millitíðinni. Líf þeirra hefur breyst og þeir eru kannski ekki alveg aðalgæjarnir í bænum lengur. Þetta er alveg nýr heimur fyrir þeim. Við gerum ráð fyrir Will Ferrell í handritinu, og hann hefur lýst yfir áhuga á að vera með. Mugatu ( sem Ferrell lék ) er mikilvægur hluti af Zoolander sögunni þannig að hann kemur mikið við sögu í númer 2.”