Nýtt í bíó – Zoolander 2 – Ólafur Darri í gestahlutverki

zoolander 2Föstudaginn 19. febrúar nk. verður gamanmyndin Zoolander 2 frumsýnd hérlendis en hún verður sýnd í Laugarásbíói annarsvegar og Sambíóunum um allt land hinsvegar.

Í tilkynningu frá Sambíóunum segir að hér sé á ferðinni grínmynd eins og þær gerast hvað bestar en auk helstu leikara úr fyrri myndinni; Ben Stiller, Owen Wilson og Will Ferrell hafa fjölmargir leikarar sem og tónlistarmenn ákveðið að taka þátt í þessari skemmtilegu framhaldsmynd.

„Gaman er síðan frá því að segja að Ólafur Darri var fenginn til að leika tiltekið gestahlutverk í myndinni. Það er því óhætt að fullyrða að myndin sé stjörnum prýdd í þeirri von um að sem flestir sem höfðu gaman af fyrri myndinni verði ekki síður sáttir við Zoolander 2,“ segir í frétt Sambíóanna.

Sjáðu stiklu úr myndinni hér fyrir neðan:

Söguþráður myndarinnar er á þessa leið: Einhver eða einhverjir hafa einsett sér að koma öllum helstu tónlistarstjörnum heims fyrir kattarnef, einni af annarri, og þar sem allt bendir til að Derek Zoolander sé einhvers konar samnefnari í lífi þeirra allra fær alríkislögreglukonan Valentina hann og félaga hans, Hansel McDonald, til að aðstoða sig við flókna rannsókn málsins.

Það eru liðin fimmtán ár frá því að fyrirsæturnar Derek og Hansel voru upp á sitt besta í bransanum enda hefur eftirspurn eftir kröftum þeirra farið síminnkandi með hverju árinu um leið og aðrir hafa tekið við keflinu. Þetta hefur að sjálfsögðu verið dapurleg þróun en þegar alríkislögreglukonan Valentina biður þá félaga að aðstoða sig við að hafa uppi á morðingja sem hefur að undanförnu verið að kála þekktu tónlistarfólki fá þeir a.m.k. eitthvað að gera. Á sama tíma sleppur hinn öskureiði og ofsafengni Jacobim Mugatu úr fangelsi, ákveðinn í að hafa uppi á Derek sem eyðilagði líf hans í fyrri myndinni, algjörlega staðráðinn í að senda hann yfir móðuna miklu í eitt skipti fyrir öll – hvað sem það kann að kosta…

Aðalhlutverk: Ben Stiller, Owen Wilson, Penélope Cruz, Will Ferrell, Christine Taylor, Kristen Wiig, Benedict Cumberbatch og Olivia Munn

Leikstjórn: Ben Stiller

Sýningarstaðir: Sambíóin Álfabakka, Egilshöll, Kringlunni, Keflavík og Akureyri, Laugarásbíó, Ísafjarðarbíó, Selfossbíó og Bíóhöllin Akranesii

Aldurstakmark: 12 ára

Áhugaverðir punktar til gamans: 

– Fyrir utan alla þá þekktu leikara sem fara með helstu hlutverkin í myndinni og eru taldir upp í kreditlistanum hér til vinstri koma fram í henni fjölmargar þekktar stjörnur sem leika í flestum tilfellum sjálfar sig. Af þeim má nefna Justin Bieber, Macaulay Culkin, Billy Zane, Ariönu Grande, Demi Lovato, Kim Kardashian, Kanye West, Lenny Kravitz og Lewis Hamilton.

– Zoolander No. 2 er nú spáð Óskarsverðlaunatilnefningum á næsta ári fyrir bestu selfí-myndina, þrengsta latexbúninginn, hvítasta loðfeldinn, mesta klaufaskapinn, bestu tískusýninguna og ógurlegasta þrjótinn, að því tilskildu auðvitað að byrjað verði að tilnefna myndir í þessum flokkum.