Zimmer óviss með Batman vs. Superman

Hans ZimmerEftir að kvikmyndatónskáldið Hans Zimmer gerði tónlistina í allar þrjár myndirnar í The Dark Knight seríu Christopher Nolan, og einnig í mynd Zack Snyder, Man of Steel, finnst mörgum aðdáendum hans það liggja beint við að hann mæti aftur til leiks í Man of Steel 2 -öðru nafni Batman vs. Superman.

Spurður að því á rauða dreglinum fyrir framan innganginn að frumsýningu kappakstursmyndarinnar Rush, hvort hann muni taka upp tónsprotann að nýju fyrir Man of Steel 2, svaraði Zimmer:

„Þetta er mjög snúið fyrir mig. Því við hugsuðum öll, ókey, nú erum við búin með Batman, en nú eru honum smyglað aftur inn. Ég verð eiginlega að hugsa um þetta. Ef ég gerði þetta þá yrði það kannski einhver allt annar Batman sem kæmi út úr því.“

Zimmer tjáði sig einnig um Ben Affleck í hlutverki Batman:

„Ég held raunverulega að þetta sé gott val, því , í fyrsta lagi, þá er hann frábær kvikmyndagerðarmaður. Hann er klár. Hann hefði aldrei tekið það að sér ef hann héldi ekki að þetta heppnaðist. Og hann er aðeins farinn að eldast, og það er það sem við þurfum, og hann er með góða höku.“

Zack Snyder leikstýrir Batman vs. Superman eftir handriti David S. Goyer. Óljóst er hvenær tökur hefjast, en stefnt er að frumsýningu 17. júlí 2015.

Með helstu hlutverk fara Henry Cavill, Amy Adams, Ben Affleck, Laurence Fishburne og Diane Lane.