Zellweger og LaBute eiga aftur samleið

Renee Zellweger og leikstjórinn Neil LaBute unnu saman við gerð myndarinnar Nurse Betty og þótti það samstarf takast með ágætum. Nú eiga þau í viðræðum um að endurtaka leikinn, og í þetta sinn heitir verkefnið Vapor. Er það byggt á samnefndri skáldsögu eftir Amanda Filipacci og hefur afar furðulegan söguþráð. Fjallar bókin um konu eina sem verður vitni að því að það sé verið að ræna mann einn úti á götu. Hún stekkur honum til hjálpar, og launar hann henni greiðann með því að ræna henni og koma henni fyrir í sérgerðum klefa á heimili hans sem fyllt er af furðulegum gufum. Þar ætlar hann að halda henni í níu mánuði og láta hana undirgangast skrítnar sjálfshjálparmeðferðir til þess að hún geti uppfyllt draum sinn um að gerast besta leikkona samtímans. Hún sleppur úr prísundinni og þau hefja ástríðufullt ástarsamband. Þótt ótrúlegt sé er myndin flokkuð sem rómantísk gamanmynd. Rómantískar gamanmyndir eru orðnar öðruvísi en þær voru í gamla daga.