XL vel tekið á Karlovy Vary

XLKvikmyndin XL, sem leikstýrt er af Marteini Þórssyni, var sýnd í gær á Karlovy Vary kvikmyndahátíðinni í Tékklandi. Hátíðin er ein sú elsta í heiminum og er svokölluð „A“ hátíð en ekki nema 14 kvikmyndahátíðir í keppnisflokki fá að bera þann stimpil. Er það því mikill heiður að vera valin til þátttöku í aðalkeppni á hátíðinni.

„Frábær stemning og æðislegar viðtökur. Frábær dómur í Huffington Post en ögn neikvæðari í Hollywood Reporter. Rosalega mikið af viðtölum og nú er önnur sýning að fara í gang. Það voru 1200 manns á sýningu í gær en það verða 800 manns í dag. Sýningin í dag verður samt ekki á réttum tíma vegna þess að Oliver Stone er að valda einhverri seinkun. Við munum svo svara spurningum áhorfenda eftir sýningu.“ sagði Marteinn hæstánægður í samtali við kvikmyndir.is

Leikkonan María Birta virðist einnig vera ánægð með móttökurnar á hátíðinni í Tékklandi og setti inn færslu á Facebook í gær eftir sýningu. „Jiminn eini. Er í skýjunum yfir viðtökunum á myndinni! Fólkið hérna er frábært og margir búnir að koma og segja okkur sýna skoðun sem hefur bara verið jákvæð! Búin með nokkur viðtöl og q&a, rauða dregilinn, pre-party og undirskriftir. Þá er það bara lokaparty dagsins!! Ég skil ekkert hvað er í gangi hérna og er vægast sagt í spennufalli – gerði mér kannski ekki alveg grein fyrir því hvað þetta er stórt dæmi og mikill heiður.. Sem er kannski bara ágætt.. Var nógu og stressuð fyrir.“

931232_10200937061244442_1552562530_n

XL fjallar um þingmanninn Leif Sigurðarson sem er neyddur í áfengismeðferð af vini sínum og félaga, forsætisráðherra Íslands. Áður en farið er í meðferð ákveður Leifur að halda eitt heljarinnar partý sem fer gjörsamlega úr böndunum.

Hérna er hægt að lesa dóm Huffington Post um XL.