Leikstjórinn snjalli Wes Anderson, sem hefur sent frá sér myndir á borð við The Royal Tenenbaums og The Life Aquatic with Steve Zissou, vinnur nú hörðum höndum að næstu mynd sinni. Tveir leikarar voru að slást í hóp með honum en þeir eru ekki af verri taginu, Bruce Willis og Edward Norton. Myndin, sem ber heitið Moonrise Kingdom, mun fjalla um ungt par á 7. áratugnum sem ákveður að flýja smábæinn sem þau ólust upp í. Það heppnast ekki betur en svo að allur bærinn heldur að þeim hafi verið rænt og leggst á eitt til að finna þau.
Norton mun fara með hlutverk skátaleiðtoga sem þvingar skáta sína til að hjálpa sér við leitina á meðan Willis leikur lögreglustjóra bæjarins sem á í ástarsambandi við móður ‘týndu’ stelpunnar. Leikarahópurinn lítur vægast sagt glæsilega út en ásamt þeim Willis og Norton munu leikarar á borð við Frances McDormand, Tilda Swinton og Bill Murray leika í myndinni.
– Bjarki Dagur