Ný kvikmynd um einn frægasta íþróttamann allra tíma, Michael Jordan, er í bígerð um þessar mundir. Leikarinn Will Smith er einn af framleiðendum myndarinnar sem mun fjalla um þann tíma sem Jordan hætti í körfuknattleik og hóf nýjan feril sem hafnaboltakappi til þess að upfylla gamlan draum föður síns.
Myndin ber heitið The Prospect og fjallar um þessa afdrifaríku ákvörðun og það sem fylgdi í kjölfarið hennar. Jordan skrifaði undir samning hjá hafnaboltaliðinu Birmingham Barons eftir að hafa sagt skilið við körfubolta árið 1993. Hann spilaði einnig með liðinu Scottsdale Scorpions á þessum stutta ferli sem varði í rúmt ár. Árið 1995 snéri hann síðan til baka til körfuboltaliðsins Chicago Bulls og er það ein merkasta endurkoma í sögu íþróttarinnar.
Jordan er af mörgum talinn einn af bestu körfuknattleiksmönnum allra tíma, ef ekki sá besti og var einn best markaðssetti íþróttamaður sinnar kynslóðar ásamt því að leika lykilhlutverk í að breiða út vinsældir körfuknattleiks á heimsvísu á 9. og 10. áratug 20. aldar. Hann lék lengst af ferli sínum í NBA deildinni með liði Chicago Bulls, en tvö síðustu árin var hann liðsmaður Washington Wizards.