Will Ferrell, Liam Neeson, Nick Offerman og Alison Brie hafa bæst við leikaralistann í teiknimynd sem Warner Bros og Village Roadshow Pictures framleiða, og heitir Lego 3d, eða Legó í þrívídd.
Framleiðsla myndarinnar er komin í fullan gang, en áður höfðu þau Chris Pratt, Elizabeth Banks, Will Arnett og Morgan Freeman samþykkt að leika í myndinni.
Myndin fjallar um ósköp venjulegan legókall, Emmett, sem Pratt talar fyrir, sem fyrir mistök er haldið að sé lykillinn að því að heimurinn bjargist. Hann flækist inn í leit að illmenni sem hyggst eyða jörðinni, en Emmett er ekki tilbúinn í verkefnið.
Gamanleikarinn Will Ferrell mun leika President Business, forstjóra sem á í erfiðleikum með að ná jafnvægi á milli þess að ná heimsyfirráðum og stjórna eigin lífi. Liam Neeson er aðstoðarmaður þorparans, þekktur sem Bad Cop.
Offerman er sjóræningi sem leitar hefnda, en Larson verður hluti af teymi Emmets og býr yfir öflugu leyndarmáli.
Myndin verður frumsýnd 7. febrúar, 2014.