Kristen Wiig, ein allra eftirsóttasta gamanleikkona og – handritshöfundur í Hollywood þessa dagana segist hafa áhuga á leikstjórn.
Á blaðamannafundi þar sem hún var að kynna nýjustu mynd sína The Secret Life of Walter Mitty, sem fjallar um mann, sem leikinn er af Ben Stiller, sem reynir að elta drauma sína, og er að mestu leyti tekin upp á Íslandi, sagði Wiig að hún hefði hlotið mikinn innblástur af því að vinna með Stiller og hann hafi kennt henni eitt og annað varðandi það að vera hinum megin við myndavélina.
„Það var mjög gefandi að horfa á Ben [Stiller] að leikstýra og leika í þessari mynd af því að ég vonast til þess að leikstýra einhverju sjálf,“ sagði Wiig.
Ásamt því að leikstýra og leika í myndinni, þá er Stiller einnig einn af framleiðendum myndarinnar, en þetta er önnur kvikmyndagerðin sem gerð er eftir smásögu James Thurber.
Wiig, sem hætti í fyrra að vinna við gamanþættina vinsælu Saturday Night Live, skrifaði og framleiddi gamansmellinn Bridesmaids árið 2011. Hún er með nokkur verkefni í vinnslu, þar á meðal myndina Anchorman 2 og framhaldið af Aulanum mér, ( Despicable Me 2 )
Wiig hrósaði Stiller fyrir að vera yfirvegaður sem leikstjóri þrátt fyrir að vera í öllum þessum mismunandi hlutverkum á sama tíma.
„Sem leikari þá viltu ekki þurfa að sjá leikstjórann missa stjórn á sér útaf neinu, og við upplifðum okkur sem mjög örugg í höndunum á Stiller,“ sagði Wiig. „Hann veit nákvæmlega hvað hann vill.“
The Secret Life of Walter Mitty er blanda af drama og fantasíu, sem er nýtt fyrir bæði Stiller og Wiig. Áður hafa myndirnar Zoolander og Tropic Thunder í leikstjórn Stillers slegið í gegn.