Wachowski bræður, sem eru þekktir meðal annars fyrir Matrix þríleikinn, vinna nú að nýrri mynd sinni Cloud Atlas, en þeir keyptu kvikmyndaréttinn að samnefndri bók eftir rithöfundinn David Mitchell á síðasta ári og réðu handritshöfundinn Tom Tykwer til að skrifa handrit. Lítið hefur spurst til myndarinnar síðustu mánuði, en nú er að komast hreyfing á málið, að því er vefsíðan cinemablend greinir frá.
Sjálfur Tom Hanks er á vefsíðunni sagður einn af þeim stjörnuleikurum sem bræðurnir hafa rætt við um hlutverk í myndinni, ásamt James McAvoy, Ian McKellen, Natalie Portman og Halle Berry. Cloud Atlas er krefjandi verkefni, sem margir hafa efast um að hægt sé að kvikmynda með góðu móti, en alls eru sex sögur í gangi í bókinni, og gerist hún á 1.000 árum. Þetta er þó væntanlega einmitt ástæða þess að Wachowski bræður hafa ákveðið að reyna sig við verkefnið.
Samkvæmt alfræðiritinu Wikipediu er sögusvið Cloud Atlas viðfeðmt og teygir sig allt frá fjarlægum stöðum í suður Kyrrahafi á nítjándu öldinni, og langt fram í dimma framtíð. Hver saga er sögð af aðalpersónunni í þeirri sem á eftir kemur. Allar sögurnar nema sú síðasta eru truflaðar á einhverjum tímapunkti og flakkað er fram og aftur í tíma.