Vonarstræti: tökur hefjast í febrúar

Fréttablaðið greinir frá því í dag að tökur á nýjustu kvikmynd leikstjórans Baldvins Z, Vonarstræti, hefjist um miðjan febrúar nk., en síðasta mynd hans, Órói, naut talsverðra vinsælda.

„Þetta er allt á milljón í augnablikinu,“ segir Baldvin um undirbúning myndarinnar í samtali við Fréttablaðið.

Í blaðinu segir að tökum á Íslandi eigi að ljúka fyrir páska og eftir það verði eitthvað efni tekið upp erlendis.

Í helstu hlutverkum verða Hera Hilmarsdóttir, Þorvaldur Davíð Kristjánsson og Þorsteinn Bachmann. Í smærri hlutverkum verða Theódór Júlíusson, Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, Elma Lísa Gunnarsdóttir, Björn Hlynur Haraldsson, Sveinn Ólafur Gunnarsson og fleiri. Í bland við þessi þekktari nöfn verða ný andlit, þar á meðal Anna Lísa Hermannsdóttir, sem lék unglinginn í sjónvarpsþáttunum Pressu.

Baldin  segir í viðtalinu í Fréttablaðinu að æfingar séu að byrja og samlestur sé hafinn, en sjá má myndir frá samlestrinum á Facebook síðu myndarinnar. Myndin hér að ofan er fengin af Facebook síðunni.

Kvikmyndir.is ræddi við Baldvin Z um Vonastræti síðasta sumar og má lesa það spjall með því að smella hér.

Stefnt er á frumsýningu myndarinnar öðru hvoru megin við næstu áramót.