Vinsælast á Netflix á Íslandi – Joe Exotic á allra vörum

Notkun Íslendinga á streymisveitunni Netflix hefur aukist stöðugt á undanförnum árum (og ekki síður undanfarna daga þegar sóttkví Íslendinga eykst með degi hverjum) og virðist vera nóg af framboði efnis sem hentar hverjum og einum.

Fyrir nokkrum mánuðum tók veitan upp á því að birta lista yfir tíu vinsælustu titla í hverju landi, en þar falla kvikmyndir, sjónvarpsþættir, heimildarmyndir og allt tilheyrandi undir sama hatt.

Listinn uppfærist daglega en að svo stöddu samanstendur hann af 10 eftirfarandi titlum sem eru heitastir á Íslandi í dag:

1. Tiger King: Murder, Mayhem and Madness

Heimildarþættirnir hafa aldeilis farið vaxandi í umtali og hafa (að veirunni utanskyldri) frá útgáfu þeirra fyrir þremur vikum. Tiger King heldur toppsætinu aðra vikuna í röð á íslensku streymiveitunni og víðar, en hér í brennidepli er sérvitringurinn Joe Exotic, betur þekktum sem ‘Tiger King’, en hann átti og rak einn stærsta dýragarð fyrir stóra ketti, í USA. Exotic er eins og persóna úr skáldskap og hafa ýmsir viðmælendur í heimildarþáttunum meira en kostulegar sögur að segja af dýragarðsverðinum. Joe var dæmdur í 22 ára fangelsi í janúar á þessu ári, meðal annars fyrir tilraun til morðs á dýraverndarsinna og illa meðferð á dýrum. Þættirnir frá Netflix eru sjö talsins og fjalla um líf hans og ótrúlega atburðarásina sem leiddi til fangelsisvistunnar.


2. Money Heist

Fjórða sería af spænsku spennuþáttunum stórvinsælu hóf göngu sína um helgina (þó réttar sé kannski að segja fjórði hluti annarrar seríu). Þættirnir La casa de papel hafa hlotið einróma lof gagnrýnenda og segja frá átta bíræfnum ræningjum sem freista þess að ræna Seðlabanka Spánar.


3. RuPaul’s Drag Race

Dragkeppni RuPaul er enn á rjúkandi góðri siglingu og hafa landsmenn fylgst ólmir með tólftu þáttaröðinni og framvindu hennar. Hver verður næstur til að fara? Hvaða átök liggja handan við hornið í nýjasta þættinum?


4. Ozark

Þriðja sería af þáttunum Ozark hóf nýlega göngu sína á Netflix við jákvæðar undirtektir, en þar mæta Jason Bateman og Laura Linney aftur til leiks í þessum æsispennandi þáttum um peningaþvott og eiturlyfjasmygl. 


5. Coffee and Kareem

Gamanleikarinn Ed Helms tekur sviðsljósið í myndinni Coffee & Kareem, en hún segir frá lögreglumanni sem lendir í vandræðum með stjúpson sinn sem vill hann feigan. 


6. Community

Gamanþættirnir Community eiga sér dyggan og breiðan aðdáendahóp, enda fer góður hópur fólks með helstu hlutverk og fjöldi gestaleikara. Þættirnir koma frá Dan Harmon og eru flestir áhorfendur – sem ekki þekkja til þeirra – eindregið hvattir til að kíkja á þessa skemmtilegu nörda- og karaktersúpu. Þeir eru þess virði fyrir Donald Glover út af fyrir sig.

7. Unorthodox

https://www.youtube.com/watch?v=-zVhRId0BTw

Þættirnir Unorthadox eru þeir fyrstu sem streymisveitan hefur framleitt sem fara mest megnis fram á jiddísku. Hér er fjallað um unga konu sem yfirgefur samfélag strangtrúaðra gyðinga í New York og byrjar nýtt líf í Berlín. En þegar hún er loks farin að geta staðið á eigin fótum fer fortíðin að hafa áhrif á líf hennar. 


8. Sunderland ‘Til I Die

https://www.youtube.com/watch?v=CYwRcubyuGM

Nú á dögunum var gefin út önnur þáttaröð af þessum vinsælu þáttum en sú fyrri sló í gegn á Íslandi og víðar en hún fjallaði um um baráttu Sunderland í Championship-deildinni. Fá þá áhorfendur að skyggnast á bak við tjöldin og sjá það sem fór úrskeiðis hjá félaginu. Í annarri þáttaröðinni er fjallað um síðasta tímabil hjá Sunderland í ensku C-deildinni, en þar fór ekki allt átakalaust fram.


9. Baby Driver

Músíkdrifni gamantryllir leikstjórans Edgar Wright kom út og hefur greinilega hitt prýðilega í mark hjá áhorfendum hérlendis á ný. Myndin fjallar um Baby (Ansel Elgort) sem er ungur og efnilegur strákur sem sinnir því hættulega starfi að keyra glæpamenn burt frá vettvangi glæpa. Þrátt fyrir ungan aldur er Baby sá besti í sínu fagi. Þegar hann kynnist draumaprinsessunni (Lily James) og verður ástfanginn, verður hans heitasta ósk sú að láta af glæpum og hefja nýtt líf, en það er ekki auðgert. Glæpakonungur (Kevin Spacey) neyðir hann til að taka þátt í hættulegu verkefni sem ógnar öllu sem Baby er kært.


How to Fix a Drug Scandal

Glæný heimildarþáttasería frá hinum virta og afkastamikla Alex Gibney. Þættirnir segja frá réttarhöldum Sonju Farak, lyfjafræðingi sem varð háð þeim efnum sem hún átti að rannsaka. Þættirnir eru fjórir í heildina og voru gefnir út þann 1. apríl.