Fyrsta stiklan er komin út fyrir hnefaleikamyndina Creed eftir Ryan Coogler, en þar fer Michael B. Jordan úr Fruitvale Station, með hlutverk sonar Apollo Creead, sem leikinn var af Carl Weathers, mótherja Rocky Balboa, sem leikinn var af Sylvester Stallone, í Rocky 1, 2, 3 og 4.
Í stiklunni fylgjumst við meðal annars með Rocky sjálfum, Sylvester Stallone, vera að þjálfa Creed fyrir komandi átök í hringnum.
Aðrir helstu leikarar eru Tessa Thompson og Phylicia Rashad sem leikur ekkju Apollo Creed.
Jordan leikur Adonis Johnson, sem þekkti aldrei hinn vel þekkta föður sinn, þar sem han dó í hnefaleikahringnum áður en Johnson fæddist. En hann er með hnefaleikana í blóðinu eins og faðir hans, og fer til Philadelphia til að biðja Rocky Balboa (Stallone) að gerast þjálfari sinn. Rocky er hikandi við að fara aftur í hnefaleikabransann, en hann heillast af styrk og ákveðni Adonis, sem sannfærir hann um að slá til.
Creed verður frumsýnd um Þakkargjörðarhátíðina í Bandaríkjunum, eða 25 nóvember.
Jordan og Coogler unnu síðast saman að Fruitvale Station, sem vann til ótal verðlauna.