Robin Wright segir að bylting þurfi að eiga sér stað í Hollywood til að jafnrétti kynjanna verði að veruleika.
„Sem betur fer er loksins farið að tala opinberlega um jafnrétti kynjanna en við þurfum á kvenkyns Che Guevara að halda,“ sagði House of Cards-leikkonan við London Evening Standard og átti þar við argentíska uppreisnarleiðtogann sem átti stóran þátt í byltingunni á Kúbu.
Mikil umræða hefur verið uppi um jafnrétti kynjanna í Hollywood undanfarið eftir ræðu Patrice Arquette þegar hún tók á móti Óskarsverðlaununum fyrr á árinu. Þar benti hún á að konur fengju ekki jafnmikið greitt og karlar fyrir sömu vinnu.
„Þetta er karlaheimur. Þannig er þetta mjög víða. En þegar þú skoðar þetta betur þá eru það konurnar sem eru að vinna mikla vinnu. En þær fá ekkert endilega þá umbun sem þær eiga skilið fyrir það,“ sagði hún.
Wright, sem verður fimmtug á næsta ári, leikur Peach, eiginkonu fjallgöngukappans Beck Weathers sem Josh Brolin, leikur í Everest-mynd Baltasars Kormáks. Hún verður frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum á næstunni.
Hún býst ekkert endilega við því að leika svipað hlutverk á næstunni. „Ef það kemur spennandi hlutverk sem vekur áhuga minn eða er öðruvísi á einhvern hátt þá er ég til. En að leika þjáðu eiginkonuna aftur? Ég er komin með nóg af því,“ sagði hún.