Breski leikarinn og leikstjórinn Kenneth Branagh er nú í óða önn að fylla inn í leikarahópinn fyrir næstu mynd sína eftir sögu sakamáladrottningarinnar Agatha Christie, Death On The Nile. Nýjasta viðbótin gæti orðið enginn annar en grínistinn og Get him to the Greek leikarinn Russell Brand. Hann á nú í viðræðum um að slást í hópinn fyrir myndina.
Í þessari mynd, sem fylgir fast á hæla síðustu Agatha Christie myndar Branagh, Murder on the Orient Express frá árinu 2017, er spæjarinn Hercule Poirot, sem Branagh mun leika á ný, á leið í gott frí í Egyptalandi. En Adam var ekki lengi í paradís – morðin elta hann hvert sem hann fer og það er einmitt það sem gerist í Egyptalandi. Poirot þarf að finna morðingja konu, áður en skipið sem þau sigla á niður Nílarfljót, kemur að landi, og farþegarnir hverfa hver til síns heima.
Nú þegar hefur Branagh tryggt sér strarfskrafta sjálfrar Wonder Woman, Gal Gadot, sem og Lone Ranger leikarans Armie Hammer, Letitia Wright, Annette Bening og Tom Bateman. Stefnt er að frumsýningu í október á næsta ári.
Nýjasta mynd Brand er ævintýramyndin Four Kids And It, sem enn er ekki vitað hvenær kemur í bíó.