Ný jólamynd kemur formlega í bíó í dag, þó hún hafi reyndar byrjað í sýningum í síðustu viku. Þar er um að ræða hina stórskemmtilegu Syngdu 2, eða Sing 2, teiknimynd troðfull af skemmtilegri tónlist og enn skemmtilegri leikurum og söngvurum.
Hægt verður að sjá aðra nýja Jólamynd, West Side Story, á einni sýningu í dag, en hún kemur fyrir alvöru í bíó um næstu helgi.
Leikstjóri Syngdu 2 er Garth Jennings, sem einnig stýrði forveranum Syngdu, frá árinu 2016.
Puntsvín og pönkari
Helstu leikarar eru Taron Egerton sem leikur fjallagórilluna Buster, Matthew McConaughey sem leikur Buster, kóalabjörninn sem rekur Moon leikhúsið, Reese Witherspoon sem leikur svínið Rositu, Scarlett Johanson sem leikur puntsvínið og pönkgítaristann Ash, og Tori Kelly sem leikur Meena, indverskan fíl, með dásamlega rödd, sem tókst að yfirvinna sviðsskrekk.
Myndin fjallar um það í meginatriðum þegar Buster Moon og vinir hans þurfa að sannfæra rokkstjörnuna og ljónið Clay Calloway, sem leikinn er af U2 söngvaranum Bono, sem hefur lifað einsetulífi í 15 ár, um að ganga til liðs við sönghópinn í tilefni af nýrri sýningu sem væntanleg er á fjalirnar.
Kenndi górillu að dansa
Dansahöfundurinn Sherrie Silver segir að það hafi verið draumi líkast að fá að vinna að Syngdu 2 og minnist þar helst vinnu við dansatriði Johnny, sem Taron Egerton leikur, söngelsku górilluna sem kann ekki að dansa en finnur að lokum sjálfstraustið til að bresta í dans.
Silver er vön því að vinna með leikurum sem kunna ekki endilega að dansa, og það að hjálpa þeim að átta sig á að þeir geti í raun dansað, finnst henni skemmtilegt.
„Það var mjög gaman að byrjað að vinna með þessa persónu sem í byrjun hefur ekkert sjálfstraust,“ segir Silver við kvikmyndaritið Variety. „Ég er vön að vinna með fyrirsætum sem kunna ekkert endilega að dansa, en í lokin, þegar þær átta sig á að þær geta gert meira en eina stellingu, er frábær tilfinning.“
Til að fá Johnny til að dansa vann Silver með teiknurunum, ekki Egerton. „Ég samdi dansana með teiknurunum sem þurftu að læra hvernig þeir gætu látið górilluna dansa á nýjan hátt,“ útskýrir Silver.
Þar sem fæstir teiknaranna kunna að dansa, þá tók Silver upp myndbönd af sjálfri sér og öðrum dönsurum að stíga réttu sporin.
„Ég gerði þetta skref fyrir skref.“
Lokaatriðið erfiðast
Dansvinnan tók tvö ár með teiknurunum. „Ég fylltist aðdáun á teiknurunum, sem gera um þrjár sekúndur af efni á viku.“
Erfiðasta atriðið var lokaatriðið þar sem allar persónurnar koma saman á sviðinu. „Það var svo mikill fjöldi á sviðinu, en þar sem þetta var unnið í Covid faraldrinum, þá gat ég ekki haft svo marga dansara með mér.”