Svarið við þessari merkilegu spurningu er einfaldlega: Já, svo sannarlega.
Allir sem hafa horft á Bond-myndirnar ættu að geta nefnt tæknimanninn Q sem eitt af því sem einkenndi njósnamyndirnar hvað mest. Þangað til að John Cleese tók tímabundið við var það Desmond Llewelyn heitinn sem fór með hlutverkið og skaut reglulega upp kollinum frá árunum 1963 til 1999. Hann var ansi ógleymanlegur.
Það lítur út fyrir að karakterinn fái loksins innkomu inn í Bond-heiminn þar sem Daniel Craig ræður ríkjum en það gæti komið ýmsum á óvart hvað nýi Q-leikarinn er ungur að þessu sinni (það sýnir bara enn eitt skiptið að aðstandendur séu að fara í óhefðbundnari áttir með nýju myndunum). Samkvæmt BBC NEWS mun græjusnillingurinn vera leikinn af Ben Whishaw, sem einhverjir ættu að muna eftir sem aðalpersónan í Perfume: The Story of a Murderer. Hann var líka einn af Bob Dylan-unum í I’m Not There.
Þriðja Bond-myndin í Craig-seríunni, Skyfall, verður frumsýnd eftir cirka ár og með hverri fréttauppfærslu hljómar hún bara enn betur. Ég efa að kvikmyndaáhugamenn og sérstaklega Bond-unnendur séu ósammála.