Variety hrósar Baltasar fyrir 2 Guns

Gagnrýnandi hins virta kvikmyndarits Variety hrósar kvikmyndaleikstjóranum Baltasar Kormáki í hástert fyrir nýjustu mynd hans 2 Guns sem frumsýnd verður um næstu helgi í Bandaríkjunum, en 14. ágúst hér á Íslandi.

2 guns denzel wahlberg

Gagnrýnandinn, Scott Foundas segir að í 2 Guns sýni Baltasar, eins og í síðustu Hollywood spennumynd hans, Contraband, að hann kunni betur en flestir að gera spennumyndir, hann haldi uppi góðum hraða, glettunum og smástríðninni á milli aðalleikaranna tveggja, Denzel Washington og Mark Wahlberg, haldi hann lifandi og hasaratriði séu gerð í gamaldags stíl, og laus að mestu við tölvubrellur, en skili sér vel.

Ennfremur segir Foundas að Baltasar, sé eins og fiskur í vatni þegar kemur að bandaríska hasarmyndaforminu, og þetta leiki allt í höndunum á honum. Ennfremur segir hann að Contraband og 2 Guns minni á myndir spennuleikstjórans Walter Hill.  Að lokum segir hann að það væri ekki slæmt að fá eina svona á ári frá leikstjóranum: „Þó að hann sé efalaust með stærri og virtari verkefni á teikniborðinu, þá myndi ég ekki slá hendinni á móti einni svona á ári frá Kormáki.“

Lestu alla umfjöllun Variety með því að smella hér.