Eins og Shia LeBeouf hefur lýst yfir þá mun hann ekki snúa aftur í enn eina Transformers myndina, enda telur hann sig ekki getað tekið karakterinn, Sam Witwicky, lengra. Hann sé nú þegar búinn að bjarga heiminum þrisvar, og því fátt meira fyrir hann að gera.
En hvað er þá til ráða. Movieblog vefsíðan bendir á orðróm þess efnis að það væri alveg tilvalið að fá harðnaglann Jason Statham í stað LeBeouf inn í Transformers seríuna. Það skemmir heldur ekki fyrir að Victoria Secret undirfatamódeliið og aðalleikkonan í þriðju myndinni, Rosie Huntington-Whiteley, er kærasta Statham og myndi örugglega snúa aftur í fjórðu myndina, ef kærastinn myndi leika aðalhlutverkið.
Movieblog hefur heimildir fyrir því frá Dark Horizons að ljóst sé að enn sé hægt að halda áfram með seríuna, og hægt að taka hana í ýmsar áttir, sérstaklega með nýjum aðalleikara sem gæti farið með seríuna í drungalegri og harðari átt.
Þar kæmi Jason Statham augljóslega sterkur inn og samband hans og Rosie væri bónus þegar kæmi að því að markaðssetja myndina.