Prime Suspect leikkonan Maria Bello vinnur nú að sjálfsævisögu sem á að fjalla um það þegar hún kom út úr skápnum sem lesbía. Bókin á að heita Miracles and Madness, en það var útgáfufyrirtækið Dey Street, sem er í eigu HarperCollins, sem tilkynnti þetta í dag, föstudag, samkvæmt Entertainment Weekly vefnum.
Í bókinni mun Bello vefa saman sögur af fjölskyldu, ást, kynlífi, trú, og fjalla um hvaða lærdóm hún hefur dregið af lífinu til þessa, en sagan verður sögð af hugrekki og heiðarleika, samkvæmt tilkynningunni.
Bókin mun byggja á grein sem leikkonan skrifaði fyrir bandaríska dagblaðið The New York Times sem hét Coming Out as a Modern Family. Í greininni fjallaði hún um reynslu sína af því að segja 12 ára syni sínum Jack að hún væri lesbía, og sagði honum frá því að hún væri í sambandi við Clare Munn, aðgerðarsinna sem fæddist í Zimbabwe. Þegar hún hafði sagt syni sínum frá þessu, þá sagði hann „Mamma, ást er ást, hver eða hvað sem þú ert.“
Bello er þekktust fyrir leik sinn í kvikmyndinni A History of Violence frá árinu 2005, og hlutverk sín í sjónvarpsþáttunum ER og Prime Suspect.
Bókin mun koma út á næsta ári.