Úr öskunni í ástareldinn

Hinir fjölmörgu aðdáendur Clint Eastwood og Meryl Streep myndarinnar The Bridges of Madison County frá árinu 1995, geta nú glaðst yfir því að von er á söngleik sem byggður er á sömu sögu og myndin.

Sá sem mun leika hlutverkið sem Clint Eastwood lék svo eftirminnilega í myndinni, ljósmyndarann sem átti eldheitt ástarævintýri með bóndakonu uppi í sveit, er Steven Pasquale, en hann er best þekktur fyrir leik sinn í brunaliðsþáttunum Rescue Me.

Söngleikurinn verður frumsýndur í sumar á Williamstown leiklistarhátíðinni í Massachusetts í Bandaríkjunum.

Ekki er vitað enn hver kemur til með að leika hlutverkið sem Streep lék í myndinni.

Söngleikurinn, eins og myndin, er byggður á metsölubók Robert James Waller og fjallar um ástríðufullt samband einmana húsmóður í Iowa á sjöunda áratug síðustu aldar, og ljósmyndara frá tímaritinu National Geographic, sem kemur óvænt inn í líf hennar.