Einn af hasarsmellum ársins, hin bráðskemmtilega Fast and the Furious 5: Rio Heist er nú komin upp í 600 milljónir dollara í tekjur, og er klárlega orðin ein stærsta mynd ársins. Það kemur því ekki á óvart að Universal myndverið vill halda í leikstjóra myndarinnar, Justin Lin, en þeir hafa nú samið við Lin og fyrirtæki hans Barnstorm Pictures um tvær stórar myndir á næstu tveimur árum.
Nú þegar er búið að ákveða að gera Fast and the Furious númer sex, en einnig mun Lin vinna að gerð myndarinnar Leading Man, en sú mynd hefur lengi verið í þróun hjá Universal.
Myndin er byggð á teiknimyndasögu frá Oni Press og fjallar um heimsfræga kvikmyndastjörnu sem notar frægð sína og glæsilega tökustaði um allan heim, til að fela alvöru starf sitt sem er; alþjóðlegur njósnari.
Af öðrum verkefnum sem Lin kemur nálægt er mynd um 442. fótgönguliðið í seinni heimsstyrjöldinni. Þetta var japönsk-bandarísk herdeild sem varð sú mest verðlaunaða í sögu bandaríska hersins.
Einnig er í vinnslu spennutryllir með vísindaskáldsögulegu yfirbragði sem Robert Glickert mun leikstýra, en hann var aðstoðarmaður Lin í Fast Five.
Þá má nefna að Lin er ennþá tengdur Terminator 5, sem og Highlander endurgerð, en þó að hann sé hættur við að leikstýra myndinni, þá mun hann hafa puttana í handritsgerðinni.
Fast Six, eða Sexy Six eins og Vin Diesel myndi kalla hana, verður frumsýnd 27. maí, 2013