Screen Gems kvikmyndafyrirtækið hefur ákveðið að seinka frumsýningu spennutryllisins Underworld: Blood Wars um þrjá mánuði, en upphaflega stóð til að frumsýna myndina fyrir hrekkjavökuhátíðina í Bandaríkjunum, nánar tiltekið 14. október nk.
Nýi frumsýningardagurinn er 6. janúar 2017.
Frumsýna átti myndina hér á landi 9. desember nk. en sá dagur mun væntanlega breytast einnig.
Aðalleikarar myndarinnar eru þau Kate Beckinsale og Theo James, en þetta er fimmta myndin í Underworld seríunni, þar sem vampírur og varúlfar koma við sögu.
Leikstjóri er þýski tökumaðurinn Anna Foerster, sem lengi hefur unnið með Independence Day leikstjóranum Roland Emmerich, en þetta er fyrsta myndin sem hún leikstýrir í fullri lengd.
Trent Garrett, Tobias Menzies, Lara Pulver, Clementine Nicholson, Bradley James og Charles Dance fara einnig með hlutverk í myndinni.
Fjórar síðustu myndir hafa þénað samtals 460 milljónir Bandaríkjadala um heim allan.
Fyrsta myndin var frumsýnd árið 2003, en þar lék Beckinsale í fyrsta sinn vampíruna Selene sem á í höggi við the Lycans ( varúlfar ) sem eiga að hafa slátrað fjölskyldu hennar.
Næstu þrjár myndir voru svo Underworld: Evolution frá árinu 2006, Underworld: Rise of the Lycans frá árinu 2009 og Underworld: Awakening frá árinu 2012.