Hin árlegu Hindberjaverðlaun, betur þekkt sem Razzie verðlaunin, voru veitt nú um helgina í 33. skiptið, en þar eru jafnan veittar viðurkenningar fyrir það versta í kvikmyndaiðnaðinum ár hvert.
Sigurvegari kvöldsins var The Twilight Saga: Breaking Dawn Part 2, fimmta og síðasta myndin í Twilight seríunni sem byggð er á bókum Stephanie Meyer.
Myndin var valin versta mynd síðasta árs og fékk sex verðlaun þar að auki.
Kristen Stewart, aðalleikkonan, var valin versta leikkonan og Taylor Lautner var valinn versti meðleikari. Lautner og Mackenzie Foy voru jafnframt valin versta parið á hvíta tjaldinu.
Leikarahópurinn í heild sinni var síðan valinn versti leikhópurinn og Bill Condon var valinn versti leikstjóri. Ennfremur, til að reka síðasta naglann í líkkistuna, þá var myndin valin versta serían.
Af öðrum verðlaunahöfum má nefna gamanleikarann Adam Sandler ( hann fékk 10 verðlaun á síðasta ári fyrir mynd sína Jack and Jill ) sem var valinn versti leikari síðasta árs og fékk einnig verðlaun fyrir versta handrit fyrir That´s My Boy. Rihanna var síðan valin versta meðleikkona fyrir frammistöðu sína í myndinni Battleship.