Tvær nýjar í bíó – Ben-Hur og Pelé: Birth of a Legend

Samfilm frumsýnir tvær kvikmyndir föstudaginn 26. ágúst nk.;  Ben-Hur, í Sambíóunum Álfabakka, Egilshöll, Kringlunni, Akureyri og Keflavík og í Laugarásbíói, Ísafjarðarbíói, Selfossbíói og Bíóhöllinni Akranesi, og Pelé: Birth of a Legend, í Sambíóunum Álfabakka, Kringlunni, Keflavík og Akureyri.

BEN-HUR

Ben-Hur

Eftir að hefðarmaðurinn Judah Ben Húr er ranglega sakaður um glæp af æskuvini sínum Messala og hnepptur í þrældóm í kjölfarið sver hann þess dýran eið að hefna sín. Á sama tíma kynnist hann Jesú og verður djúpt snortinn af boðskap hans.

benhurSögulega skáldsagan um Ben Húr er einhver þekktasta saga heimsbókmenntanna og um leið ein sú áhrifaríkasta, en engin bók fyrir utan Biblíuna er talin hafa haft jafn mikil áhrif á kristna trú og hún. Sagan, sem Lee Wallace skrifaði og gaf út árið 1880, er í raun byggð á öðrum sögulegum bókum og heimildum um líf Jesú Krists og samtíðarmanna hans og þótt Ben Húr sjálfur sé skáldsagnapersóna og miðpunktur sögunnar eru flestar aðrar persónur hennar raunverulegar. Þessi glænýja stórmynd er framleidd í sameiningu af kvikmyndarisunum MGM og Paramount og er ætlað að fanga hið sanna andrúmsloft bókarinnar og hughrif hennar á lesendur.

Sjáðu stiklu úr myndinni hér fyrir neðan:

Aðalhlutverk: Jack Huston, Morgan Freeman, Toby Kebbell, Nazanin Boniadi, Ayelet Zurer, Pilou Asbæk og Rodrigo Santoro

Leikstjórn: Timur Bekmambetov

Aldurstakmark: 12 ára

——————————————————————————————

Pelé: Birth of a Legend

Knattspyrnumaðurinn Pelé fæddist árið 1940 og vakti athygli aðeins þrettán ára að aldri fyrir einstaka knattspyrnuhæfileika. Sextán ára gamall varð hann liðsmaður knattspyrnufélagsins Santos og á næstu árum skapaði hann sér ódauðlegt nafn sem einn besti knattspyrnumaður allra tíma.

pele s

Í myndinni Pelé: Birth of a Legend, er farið yfir lífshlaup þessa mikla knattspyrnumanns með sérstakri áherslu á bakgrunn hans og æsku sem einkenndist af fátækt en afar sterku sambandi við fjölskylduna …

Sjáðu stiklu úr myndinni hér fyrir neðan:

Aðalhlutverk: Kevin de Paula, Leonardo Lima Carvalho, Vincent D’Onofrio, Seu Jorge og Seth Michaels

Leikstjórn: Jeff og Michael Zimbalist

Aldurstakmark: Leyfð

Áhugaverðir punktar til gamans:

– Pelé er sjálfur einn af framleiðendum myndarinnar og kemur fram í henni í hlutverki hótelgests. Reynið að koma auga á hann!

pele– Pelé heitir í raun Edson Arantes do Nascimento, en á fæðingarvottorði hans stendur að hann heiti Edison, þ.e. með i-i. Bæði Pelé og foreldrar hans sögðu samt ætíð að þetta væri misritun og að það hafi ekki átt að vera neitt i í nafni hans þrátt fyrir að hann hefði verið nefndur í höfuðið á Thomasi Alva Edison! Pelé var reyndar alltaf kallaður Dico í barnæsku af foreldrum sínum og fjölskyldu.

– Gælunafnið Pelé festist við Edson um átta ára aldur en hann segist ekki vita hvers vegna. Þeir sem leitað hafa skýringa á nafngiftinni hafa m.a. giskað á að það hafi verið framburður Pelés á nafni uppáhaldsfótboltamanns síns, Bilé, sem hafi valdið því að skólafélagar hans byrjuðu að kalla hann Pelé. Nafnið hefur enga sérstaka merkingu í portúgölsku og þótt það þýði „kraftaverk“ í hebreskri tungu er ekki talið að það sé upprunnið þaðan.