Tvær nýjar myndir koma í bíó á föstudaginn næsta, þann 8. apríl. Hardcore Henry verður frumsýnd í Laugarásbíói, Smárabíói, Háskólabíói og Borgarbíói Akureyri, og The Divergent Series: Allegiant, verður frumsýnd í Sambíóunum Álfabakka, Egilshöll, Kringlunni, Keflavík og Akureyri, Ísafjarðarbíói, Selfossbíói, Bíóhöllinni Akranesi og Króksbíói Sauðárkróki.
Það er óhætt að segja að Hardcore Henry sé öðruvísi hasarmynd. Þú, sem áhorfandi, vaknar algjörlega minnislaus á einhvers konar sjúkrastofu þar sem kona sem segist vera eiginkona þín er að lappa upp á þig í orðsins fyllstu merkingu eftir að hafa vakið þig upp frá dauðum. Hún segir þér að þú heitir Henry. Fimm mínútum síðar er búið að ræna henni og þitt hlutverk er að finna út úr málunum áður en illmennið og mannræninginn Akan nær að fá sínu framgengt, en hann nýtur liðsinnis óteljandi málaliða sem vilja gjarnan og allir sem einn senda þig yfir móðuna miklu á ný. Sá eini sem virðist standa með þér og vill hjálpa þér er breskur náungi að nafni Jimmy. Meira veistu ekki. Eina leiðin fyrir þig/Henry til að fá botn í málið er að hella sér út í hasarinn af fullum krafti, sigrast á málaliðunum og finna bæði Akan og eiginkonuna. Ef þér tekst að lifa þá þolraun af tekst þér kannski um leið að uppgötva hver þú ert í raun og veru, kannski ekki. Gangi þér vel!
Hardcore Henry er sem sagt fyrstu persónu hasarmynd sem þýðir að áhorfandinn sjálfur er í aðalhlutverkinu og sér allt gerast frá sjónarhorni aðalpersónunnar, Henrys. Segja má að þetta sé blanda af Jason Bourne, Captain America og Call of Duty-tölvuleiknum!
Sjáðu stiklu úr myndinni hér fyrir neðan:
Áhugaverðir punktar til gamans:
– Hardcore Henry er fyrsta mynd leikstjórans Ilya Naishuller en hann hafði þó áður gert tónlistarmyndbönd fyrir rússnesku hljómsveitina Biting Elbows. Þau myndbönd eru í sama stíl og Hardcore Henry, þ.e. gerð út frá fyrstu persónu sjónarhorni.
– Myndin var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Toronto síðastliðið haust og varð ein vinsælasta mynd hátíðarinnar. Dreifingaraðilar eins og Lionsgate, Universal og STX Entertainment kepptu síðan um að kaupa sýningarréttinn sem að lokum var seldur síðastnefnda fyrirtækinu og er kaupverðið sagt hafa verið tíu milljónir dollara.
– Hardcore Henry hlaut áhorfendaverðlaunin á Toronto-hátíðinni.
Aðalhlutverk: Haley Bennett, Tim Roth, Sharlto Copley, Ilya Naishuller, Cyrus Arnold og Darya Charusha Leikstjórn: Ilya Naishuller
Leikstjórn: Ilya Naishuller
Aldurstakmark: 16 ára
The Divergent Series: Allegiant
Eftir leyndardómana sem afhjúpuðust í Insurgent þurfa þau Tris, Four og félagar þeirra að komast handan veggjarins sem umlykur Chicago en þar bíða þeirra enn fleiri uppgötvanir og leyndarmál.
„Aðdáendur Divergent-ævintýrsins geta farið að reima á sig skóna í annarri viku aprílmánaðar því fyrri hluti þriðja og síðasta kafla sögunnar, Allegiant, er væntanlegur í bíó 8. apríl. Í honum fáum við að sjá hvernig Tris, Four og félögum þeirra tekst að sleppa út í auðnina handan veggjarins sem umlykur Chicago þar sem þau uppgötva nýjan hóp af fólki og leiðtoga þeirra, Pure. Hann segir Tris m.a. að hún sé ekki bara lykillinn að framtíð mannkyns heldur eini lykillinn og eini bjargvætturinn. En er honum fyllilega treystandi?,“ segir í tilkynningu Sambíóanna.
Sjáðu stiklu úr myndinni hér fyrir neðan:
Aðalhlutverk: Shailene Woodley, Theo James, Jeff Daniels, Naomi Watts, Octavia Spencer, Miles Teller, Zoë Kravitz og Ansel Elgort
Leikstjórn: Robert Schwentke
Aldurstakmark: 12 ára
Fróðleiksmolar til gamans:
– Allegiant er eins og flestum er kunnugt þriðja bókin í hinum geysivinsæla þríleik rithöfundarins Veronicu Roth sem farið hefur sigurför um heiminn og nefnist The Divergent Series einu nafni. Bækurnar, sem voru þýddar á íslensku af Magneu J. Matthíasdóttur og komu út hjá bókaútgáfunni Björt, nefnast á íslensku Afbrigði, Andóf og Arfleifð. Í kvikmyndaútfærslunni er síðustu bókinni þó skipt upp í tvær myndir og verður sú síðari, sem nefnist Ascendant, frumsýnd að ári.
– Leikstjóri Allegiant er sá sami og leikstýrði Insurgent, Robert Schwentke, og leikhópurinn er einnig að mestu leyti sá sami, en við bætast nokkrar nýjar persónur eins og t.d. leiðtoginn Pure sem Jeff Daniels leikur.