Úrval komandi stórmynda og listrænna gimsteina sem líklegir eru til að hífa kvikmyndaárið upp
Árið 2025 er langt frá því búið og næstu mánuðir lofa miklu fyrir alla kvikmyndaunnendur. Hér má búast við öllu frá stórbrotnum vísindaskáldskap til listrænna meistaraverka. Hér eru 10 myndir sem eiga eftir að hrista upp í bíóárinu.
10. The Long Walk
Frumsýning: 11. september 2025
Aðlögun að verki Stephen King sem hefur verið lengi í vinnslu og er nú loksins að verða að veruleika. Sagan gerist í dystópískum Bandaríkjunum þar sem hundrað ungir drengir taka þátt í maraþongöngu þar sem aðeins einn lifir af. Með spennuþrunginni frásögn, ógnvænlegu andrúmslofti og samfélagsgagnrýni undir yfirborðinu lofar þessi mynd að verða bæði áleitin og ógnvekjandi.
9. The Smashing Machine
Frumsýning: 2. október 2025
Dwayne “The Rock” Johnson fer með hlutverk MMA-goðsagnarinnar Mark Kerr í þessari ævisögulegu dramatík frá leikstjóranum Benny Safdie (Uncut Gems). Emily Blunt leikur eiginkonu hans, og myndin kafar í hápunkta og myrkar hliðar blandaðra bardagaíþrótta með áherslu á persónulegar fórnir og innri baráttu. Þrungin orka, átök og tilfinningaleg dýpt gætu gert hana að verðlaunakeppanda í lok árs.
8. Good Fortune
Frumsýning: 16. október 2025
Aziz Ansari skrifar og leikstýrir þessari snjöllu og fyndnu gamanmynd sem fjallar um tilviljanir, örlög og mannleg tengsl. Sagan hefst þegar óvænt atvik tengir saman tvo ókunnuga einstaklinga og setur af stað keðju atburða sem breytir lífi þeirra á ófyrirséðan hátt. Með stórleikurum á borð við Keanu Reeves, Seth Rogen og Keke Palmer lofar myndin að blanda saman fyndnum samtölum, óvæntri atburðarás og hlýrri, mannlegri sögu. Fullkomin blanda fyrir létta en innihaldsríka bíóupplifun í lok árs.
7. Predator: Badlands
Frumsýning: 6. nóvember 2025
Predator snýr aftur í blöndu af vísindaskáldskap og hasar-augnkonfekti. Að þessu sinni gerist sagan í fjarlægri framtíð þegar mannkynið hefur hafið landnám reikistjarna. Meginhluti sögunnar á sér stað á Yautja Prime, heimaplánetu rándýranna, en hluti hennar gerist einnig á plánetunni Kalisk, þar sem hópur hermanna og glæpamanna neyðist til að sameinast gegn ógn úr þeirra röðum. Í miðju sögunnar er ungt útskúfað rándýr sem myndar ólíklegt bandalag á hættulegri ferð sinni í leit að hinum fullkomna andstæðingi. Þungt andrúmsloft, spennandi átök og rótgróinn myrkur tónn gerir þetta að skylduáhorfi fyrir aðdáendur seríunnar.
6. Frankenstein
Frumsýning: Nóvember 2025 (Netflix)
Guillermo del Toro, meistari myrkrar fegurðar, með ferska nálgun á hina goðsagnakenndu Frankenstein sögu. Oscar Isaac leikur vísindamanninn, Jacob Elordi skrímslið og Mia Goth fer með lykilhlutverk. Del Toro lofar bæði rómantík og djúpstæðri tilvistarhugleiðingu um lífið, dauðann og það sem gerir okkur mannleg.
5. Tron: Ares
Frumsýning: 9. október 2025
Eftir meira en áratug frá síðustu Tron mynd snýr þessi rafmagnaða tölvuheimssería aftur með fersku yfirbragði. Jared Leto fer með hlutverk öflugrar gervigreindar sem brýst út í hinn raunverulega heim og Jeff Bridges snýr aftur í hlutverki sínu. Með tónlist frá Nine Inch Nails og glæsilegri framleiðslu er útlit fyrir að þetta verði ómissandi viðburður fyrir aðdáendur cyberpunk og myndrænna ævintýra.
4. Caught Stealing
Frumsýning: 28. ágúst 2025
Darren Aronofsky (Requiem for a Dream, The Whale) snýr sér að spennuþrunginni glæpasögu í þessari stjörnum prýddu kvikmynd. Austin Butler fer með hlutverk fyrrum hafnaboltaleikara sem flækist inn í hættulega undirheima. Með honum leika meðal annarra Zoë Kravitz, Regina King og Bad Bunny. Harðsoðin frásögn, markviss spennuuppbygging og sjónræn nákvæmni Aronofsky gefa góð fyrirheit.

3. Avatar: Fire & Ash
Frumsýning: 19. desember 2025
James Cameron heldur ævintýrinu áfram á plánetunni Pandoru í þriðju Avatar myndinni. Að þessu sinni kynnast áhorfendur nýju svæði og nýjum ættbálkum Na’vi. Búast má við stórkostlegum myndbrellum, mögnuðum hasar og epískum átökum. Cameron lofar sögu sem nær bæði til hjartans og augnanna og kvikmyndaupplifun sem nýtur sín best á stóru tjaldi með hágæða hljóði eins og Dolby Atmos. Þetta er stórmynd sem beint er til þeirra sem vilja upplifa bíóið í sinni bestu mynd í glæsilegu umhverfi, hvort sem það er í nýja lúxussalnum Ásberg í Kringlunni eða stærstu bíósölum landsins.
2. House of Dynamite
(TBA – Tilkynnt síðar)
Leikstjórinn Kathryn Bigelow (The Hurt Locker, Zero Dark Thirty) snýr aftur með háspennutrylli sem gerist í rauntíma og á rætur í pólitískum raunveruleika. House of Dynamite fylgir starfsmönnum Hvíta hússins þegar þeir þurfa að bregðast við yfirvofandi eldflaugaárás á Bandaríkin. Með yfirþyrmandi spennu, pólitískum undirtónum og leikstjórnarsnilld Bigelow, auk kraftmikils leiks Idris Elba í aðalhlutverkinu, gæti myndin orðið bæði örvandi og óbærilega spennandi kvikmyndaupplifun, og jafnvel eitt af stóru verðlaunaverkunum í lok árs.
1. One Battle After Another
Frumsýning: 25. september 2025
Paul Thomas Anderson er þekktur fyrir stórar, flóknar og óvæntar sögur, og hér virðist hann fara skrefinu lengra. Leonardo DiCaprio, Sean Penn og Benicio del Toro leiða leikaraliðið í frásögn af fyrrum byltingarmanni sem neyðist til að snúa aftur til upprunans þegar dóttir hans er tekin til fanga af gömlum óvini. Myndin er tekin upp í IMAX risabíósniði, lofar sjónrænu stórvirki og gæti fest sig í sessi sem ein af stærstu kvikmyndaupplifunum ársins.










