Tony Curtis – leikari og kvennaljómi, látinn


Hollywoodleikarinn Tony Curtis er látinn. Hann lést á heimili sínu í Henderson í Nevada í Bandaríkjunum, að því er ABS fréttastofan sagði frá fyrr í dag.
Curtis var þekktur fyrir leik sinn í myndum eins og The Sweet Smell of Success og Some Like it Hot þar sem hann lék á móti Jack Lemmon og Marylin Monroe.

Curtis var einn allra vinsælasti leikarinn í Hollywood á sjötta áratug síðustu aldar enda þótti hann fjallmyndarlegur og aðlaðandi. Curtis átti eftirminnilegan leik í myndinni Spartacus árið 1960 og fékk tilnefningu til Óskarsverðlauna fyrir leik sinn í myndinni The Defiant Ones árið 1958.

Ferill leikarans byrjaði þó brösuglega. Fyrsta aðalhlutverk hans var í myndinni The Prince Who Was a Thief árið 1951, og gagnrýnendur voru ekki hrifnir af því að arabíski prinsinn sem Curtis lék hafi talað með sterkum New York hreim.

En þrátt fyrir þessa byrjun þá varð Curtis stjarna og bíógestir löðuðust að sjarmörnum.

Af öðrum myndum leikarans má nefna Houdini, Trapeze, Operation Petticoat, The Boston Strangler, The Vikings og The Great Imposter.

Curtis lék í meira en 140 myndum á ferlinum, bæði gamanhlutverk og drama, en líf hans litaðist aðeins af misnotkun kókaíns og áfengis, og margra slæmra mynda sem hann lék í.

Curtis hét upphaflega Bernard Schwartz og fæddist þann 3. júní árið 1925 í New York. Foreldrar hans voru ungverskir innflytjendur. Hann hætti í skóla og fór í herinn og barðist í seinni heimsstyrjöldinni, en sneri sér að kvikmyndaleik eftir að herþjónustu.

Curtis var mikill kvennaljómi og gifti sig sex sinnum. Hann var meðal annars kærasti Marylin Monroe og Natalie Wood. Sjötta eiginkona hans var Jill Vandenberg, sem var 45 árum yngri en karlinn.

Þegar hann hætti meira og minna að leika sneri hann sér að listmálun, sem honum fannst mun innihaldsríkari en nokkurt hlutverk sem hann hafði nokkurn tímann leikið.

Á meðal barna Curtis er Jamie Lee Curtis, fræg Hollywood leikkona.