Marvel tilkynnti í dag að hinn 19 ára gamli breski leikari Tom Holland, sem lék m.a. aðalhlutverkið í Tsunami – fellibyljamyndinni The Impossible, myndi leika Köngulóarmanninn í næstu mynd um ofurhetjuna sem væntanleg er í bíó árið 2017.
„Við skoðuðum marga frábæra unga leikara,“ sagði Tom Rothman forstjóri Sony Pictures Motion Pictures Group í yfirlýsingu,“ en áheyrnarprufur Tom voru einstakar. Við virðumst vera komin á fljúgandi ferð.“
Amy Pascal, framleiðandi myndarinnar er jafnframt ánægð með leikarann: „Í Tom fundum við fullkomin leikara til að færa sögu Spider-Man inn í heim Marvel.“
Þó að Holland sé fjórum árum eldri en Peter Parker er upprunalega í teiknimyndasögunum ( þar er hann 15 ára ), þá er hann mun nær Parker í aldri en þeir tveir leikarar sem hafa túlkað hann til þessa. Tobey Maguire var 26 ára þegar hann var ráðinn í hlutverk Spider Man í mynd Sam Raimi frá árinu 2002, og Andrew Garfield var 27 ára þegar hann var ráðinn í mynd Marc Webb frá árinu 2012, The Amazing Spider-Man.
Marvel tilkynnti einnig við sama tækifæri að Jon Watts myndi leikstýra myndinni.
Hér er Instagramsíða Holland, þar sem hann hefur verið að leika sér að því að fara í heljarstökk í tilefni af ráðningunni.