Stórleikarinn sívinsæli Tom Hanks mun leika aðalhlutverkið í kvikmyndinni The Polar Express. Verður hún framleidd og líklega leikstýrt af vini hans Robert Zemeckis en þeir unnu einmitt saman að bæði Cast Away og Forrest Gump. William Broyles nokkur, handritshöfundurinn að Castaway, hefur skrifað uppkast að handriti, og mun að öllum líkindum verða fenginn til þess að skrifa einnig lokaútgáfuna að handritinu. Sagan er byggð á sígildri samnefndri barnabók sem fjallar um dreng nokkurn sem vaknar á jólanótt. Hann fer út úr húsinu, og upp í dularfulla lest sem bíður eftir honum fyrir utan. Lestin fer með hann á norðurpólinn þar sem hann á einhver samskipti við jólasveininn og jólabjalla nokkur kemur einnig við sögu. Hanks leikur síðan stjórnanda lestarinnar sem kemur til með að hafa mikil áhrif á framvindu mála. Ekki hefur verið rætt um aðra leikara að svo stöddu.

