Í september sl. staðfesti leikstjóri kvikmyndarinnar Trainspotting, Danny Boyle, að tökur framhaldsmyndarinnar, Trainspotting 2, myndu hefjast nú í sumar, 2016.
Í desember var staðfest að allir aðalleikarar fyrri myndarinnar myndu snúa aftur og frumsýningardagur var ákveðinn árið 2017.
Facebook síða The Official Humans of Edinburgh átti nýlega samtal við Boyle, og staðfesti hann við hana að tökur myndu fara fram í Edinborg í Skotlandi, en það er sami staður og fyrri myndin var tekin á. Jafnframt sagði hann að undirbúningur væri þá þegar hafinn.
„Við erum í Skotlandi núna að taka upp Trainspotting 2. […] Að koma aftur til Edinborgar hefur verið frábært, sérstaklega vegna þess að síðan fyrri myndin var tekin þá hefur Edinborg breyst mikið.“
Blaðamaðurinn áréttaði síðar í færslu undir fréttinni að leikstjórinn væri í raun að vinna að undirbúningi og rannsóknum, en tökur myndu hefjast formlega í maí.
Opinber titill hefur ekki verið gefinn út, en því hefur verið lýst yfir að ekki verði notað sama heiti og í framhaldsbók Trainspotting eftir Irvine Welch frá árinu 2002, Porno.
Myndin verður þó unnin upp úr bókinni, og segir frá fjórum aðalpersónum fyrri myndarinnar, þeim Renton, Sick Boy, Spud og Begbie, og innreið þeirra inn í klámiðnaðinn.
Erfitt hefur reynst að skipuleggja tökurnar þar sem leikararnir eiga mjög annríkt, Jonny Lee Miller leikur t.d. aðalhlutverkið í CBS dramanu Elementary og Robert Carlyle leikur aðalhlutverkið í ævintýraseríu ABC stöðvarinnar Once Upon a Time, en í maí smellur þetta allt loksins saman.